Þegar ég svara fyrirspurnum fer svarið stundum í ruslapósthólfið. Athugið þar ef þið hafið ekki fengið svar frá mér eftir 48 tíma.
Veisluhöld eiga að vera skemmtileg, fyrir alla sem að þeim koma: Gesti, skipuleggjendur, þjónustufólk, tæknifólk og skemmtikrafta. Að áreita fólk sem vinnur við veisluhöld fyrirtækisins þíns kemur óorði á fyrirtækið og er ófaglegt. Ég geri þær kröfur að geta sinnt starfi mínu án þess að verða fyrir kynferðislegri eða kynbundinni áreitni.
Kynferðisleg áreitni kemur reglulega upp í starfi mínu sem skemmtikraftur og sérstaklega sem plötusnúður. Ég lendi í áreitni í um 10% þeirra gigga sem ég tek að mér. Þetta er ástæðan fyrir því að ég er oftast með aðstoðarmanneskju með mér, hverrar hlutverk er fyrst og fremst að passa upp á þetta.
Ef upp kemur áreitni læt ég skemmtinefnd vita á kvöldinu sjálfu og hef einnig samband við mannauðsstjóra og yfirmenn daginn eftir eða mánudaginn eftir. Ef svo vill til að ég fái nóg, þá mun ég taka úr sambandi og fara, en rukka fullt verð fyrir kvöldið. Ég er ráðin sem skemmtikraftur, ekki til að kóa með óheilbrigðri hegðun. Verkferlar eru mismunandi innan fyrirtækja: Menn hafa misst vinnuna eftir slíkt fíaskó, einhverjum hefur verið meinað að koma í partý á vegum fyrirtækisins þar sem áfengi er haft um hönd eða skikkaðir í meðferð.
Að öðru leyti er ég að sjálfsögðu bundin trúnaði um það sem gerist í þeim partýum sem ég er ráðin í, en þegar kemur að kynferðslegri áreitni læt ég viðeigandi fólk vita. Þar að auki gæti komið fyrir að ég tjái mig um áreitnina og mína upplifun af henni á samfélagsmiðlum og í viðtölum.
Hér er grein eftir mig sem fjallar um áreitni í mínu starfi: Haltu kjafti, vertu sæt og skemmtu okkur.
Ég hvet fyrirtæki að vera með skýrar reglur þegar kemur að áreitni, einelti og mismunun sem varða alla þeirra starfsemi. Starfsmannapartý, árshátíð, jólahlaðborð og þess háttar á vegum fyrirtækis fellur undir reglur og stefnur fyrirtækis. Það er ekkert sem getur komið í veg fyrir áreitni, nema áreitarinn sjálfur. Hins vegar er hægt að hafa skýra áætlun til að fylgja þegar svona mál koma upp.
Hér eru hins vegar nokkur ráð frá vinkonu minni Lauren Mayer, sem ég mæli með að skoða.